Eyðileggingin breiðist út

Leðjan er full af eiturefnum sem berast út í umhverfið
Leðjan er full af eiturefnum sem berast út í umhverfið Reuters

Náttúruspjöll vegna eitraðrar leðju sem lak út úr þró súrálsverksmiðju í Veszprem héraði í vesturhluta Ungverjalands sjást víða. Er talið að eiturefni séu byrjuð að berast í Dóná, næstlengsta fljót Evrópu, og er talið að eiturefnin geti náð til sex ríkja í Mið-Evrópu.

Á vef BBC er haft eftir forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban: „Þetta er alvarlegt umhverfisstórslys." Honum var verulega brugðið er hann heimsótti svæðið sem varð verst úti en talið er að hreinsunarstarfið taki eitt ár hið minnsta. Gríðarlegur kostnaður fylgir hreinsuninni. 

Eitraða rauða leðjan sem lak út í umhverfið hefur meðal annars drepið fisk í Marcal ánni, en hún var fyrsta áin sem leðjan lak í. Ekki hefur frést af fiskdauða í öðrum ám sem leðjan hefur farið í en vel er fylgst með gangi mála af almannavörnum og vísindamönnum á þeirra vegum.

Basísstig í ánni Raba er hærra en eðlilegt er en það mældist um pH9 í morgun en ekki er hætta á ferðum ef það er á bilinu  pH6 og pH8.

Svæðið næst súrálverksmiðjunni í Ajka er afgirt en íbúar óttast annað mengunarslys, samkvæmt frétt BBC. Yfirmenn verksmiðjunnar og bæjaryfirvöld telja það ólíklegt en ekki verði tekin nein áhætta þar að lútandi. Yfirmenn verksmiðjunnar mættu á borgarafund í Kolontar í gærkvöldi og hótuðu ævareiðir þorpsbúar fyrirtækinu málshöfðun og kröfðust skaðabóta frá fyrirtækinu.

Herwit Schuster, talsmaður Grænfriðunga, lýsir mengunarslysinu sem einu af þremur alvarlegustu umhverfisslysum í Evrópu síðustu 20-30 ár.

Fjórir eru látnir, þrír fullorðnir og eitt barn,  og þriggja er enn saknað. Yfir 120 manns hafa þurft að leita sér læknishjálpar vegna eitrunarinnar. Margir þeirra með alvarleg brunasár enda ætandi efni í leðjunni.

Ál er búið til úr súráli

Á vef Alcoa kemur fram að leðjan, sem súrál er unnið úr, sé  í raun málmgrýti sem nefnist báxíð. Báxíð er málmgrýti sem er ríkt af áloxíðum og hefur tekið milljónir ára að myndast. Báxíð var fyrst grafið upp með skipulögðum hætti í Frakklandi, en finnst nú á fjölda staða um allan heim. Í dag er mest um námugröft á báxíði í Karíbahafinu, Ástralíu og Afríku.

Til þess að breyta báxíði í súrál þarf að mala það niður í bland við kalk og vítissóda. Þeirri blöndu er síðan dælt inn í ofna sem eru undir miklum þrýstingi og hún hituð. „Áloxíðin, sem við erum að reyna að ná úr þessari blöndu, eru leyst upp úr vítissódanum og falla svo úr blöndunni. Þá eru áloxíðin hreinsuð og hituð til þess að ná úr þeim vatninu. Það sem eftir stendur er hvítt, púðurkennt efni sem við köllum súrál eða áloxíð ," segir á vef Alcoa. Súrál verður að áli við rafgreiningarferli sem nefnist álbræðsla í daglegu tali en sá hluti framleiðslunnar fer fram í álverksmiðjum á Íslandi.

Hér er hægt að skoða kort og lesa ítarlega fréttir BBC af umhverfisslysinu


Íbúar í þorpinu Devecser reyna að hreinsa leðjuna burt
Íbúar í þorpinu Devecser reyna að hreinsa leðjuna burt Reuters
Frá þorpinu Kolontar
Frá þorpinu Kolontar Reuters
Ólíklegt er að hægt verði að búa á þeim svæðum …
Ólíklegt er að hægt verði að búa á þeim svæðum sem verst urðu úti í umhverfisslysinu Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert