Talið er að búið verða að bora gat til námamannanna 33 sem hafa verið innlyksa í námugöngum í Chile í tvo mánuði eftir nokkrar klukkustundir. Fjölskyldur þeirra bíða við námuna og biðja fyrir ástvinum sínum ofan í námugöngunum við kertaljós. En þrátt fyrir að borað verði í gegn í nótt líða nokkrir dagar þar til hægt verður að bjarga þeim upp á yfirborð jarðar.
Laurence Golborne sem stýrir aðgerðunum segir að þrír til átta dagar séu í að björgunin sjálf hefst. Mennirnir hafa verið lokaðir niðri í göngunum á 700 metra dýpi síðan San Jose náman lokaðist 5. ágúst sl.
Andre Sougarret, verkfræðingurinn sem ber ábyrgð á boruninni, segir í samtali við BBC að fara verði afar varlega nú þegar borinn nálgast mennina. Brjóta þurfi afar hart grjót og hætta sé á að einhver meiðist þegar flísast út úr grjótinu.
Því þurfi að byrja á því að senda myndavél niður svo hægt sé að fylgjast með.