Evrópulögreglan (Europol) segir að á síðustu fimm árum hafi útlagagengin (e. Outlaw Motorcycle Club Gang) Hells Angels, Outlaws og Bandidos aukið ört umsvif sín í Evrópu. Er nú svo komið að í álfunni starfi um 425 klúbbar sem tilheyri samtökunum. Þetta kemur fram á vef ríkislögreglustjóra.
Ekki er sérstaklega rætt um stöðu Íslands í tilkynningu á vef ríkislögreglustjóra. Þar segir hins vegar að í mörgum ríkjum Evrópu sé litið svo á að vélhjólaklúbbarnir feli í sér ógn á landsvísu og víða telji yfirvöld það mikilvægt forgangsmál að hefta umsvif þeirra á vettvangi skipulagðrar glæpastarfsemi.
Þá segir að á síðustu fimm árum hafi rúmlega 120 klúbbar verið myndaðir í Evrópu sem fylgi Hells Angels, Outlaws og Bandidos að málum. Aukin umsvif Hells Angels í Suðaustur-Evrópu séu talin sérstakt áhyggjuefni.
„Alvarleg glæpastarfsemi fylgir umsvifum útlagagengja í Evrópu. Við hjá Europol höfum áhyggjur af aukinni útbreiðslu þeirra og leggjum nú aukna áherslu á að fylgjast með umsvifum þeirra. Við erum staðráðin í að uppræta ólöglegt athæfi þeirra í samvinnu við löggæsluyfirvöld í Evrópu,“ er haft eftir Rob Wainwright, forstjóri Europol, í tilkynningu.