Liu Xia, eiginkona Liu Xiaobo, handhafa friðarverðlauna Nóbels í ár, er „horfin“ að sögn lögfræðings hans. Slökkt er á farsíma hennar og leikur grunur á að hún sé nú í haldi lögreglu.
„Hún er horfin. Við höfum öll áhyggjur af þeim,“ hefur AP-fréttastofan eftir Shang Baojun, lögmanni Liu, í dag en eftirmiðdagur er nú í Kína.
Lögreglan heldur blaðamönnum í hæfilegri fjarlægð frá fangelsinu þar sem Liu afplánar nú 11 ára fangelsisdóm vegna andófs gegn kínverska ríkinu en eiginkona hans ætlaði að greina honum frá verðlaununum í dag, laugardag.
Fordæma verðlaunin
Lögfræðingur verðlaunahafans segir hins vegar ekkert hafa spurst til hennar og leiðir hann því líkur að því að hún sé í haldi lögreglunnar.
Verðlaunin hafa verið fordæmd í kínverskum fjölmiðlum og má nefna að í Global Times segir að þau séu birtingarmynd vestræns hroka og hugmyndafræði.
Þau séu vanvirða við kínverku þjóðina.
Kínverska lögreglan beitir hörku
Þegar skýrt var frá því að verðlaunin kæmu í hlut Liu fór kínverska lögreglan umsvifalaust á heimili eiginkonu hans og hugðist gera henni að yfirgefa Peking undir því yfirskyni að þeim yrði leyft að hittast í fangelsinu.
Hún vildi þá efna til blaðamannafundar en var meinað það. Þess í staðinn var henni haldið nauðugri í íbúðinni.
Beth Schwanke, fulltrúi friðarsamtakanna Freedom Now í Washington, kveðst óttast að kínverska lögreglan noti verðlaunin og þá athygli sem þau hafi vakið sem tylliástæðu til að hneppa Liu í varðhald þannig að hún sé ekki í sviðsljósi heimspressunnar.