Fyrir rúmlega hálfri öld bað breski leikarinn Sir Michael Caine lækni um að gefa dauðvona föður sínum of stóran skammt af verkjalyfjum til að lina þjáningar hans á dánarbeðinu. Caine er fyrst að skýra frá þessu núna en hann þagði um málið af tillitsemi við móður sína.
Faðir Caine hét Maurice Micklewhite en hann var flutningamaður á fiskmarkaði er hann greindist með krabbamein í lifur.
Micklewhite var 58 ára er sjúkdómurinn komst á lokastig.
Það var þá sem Caine heimsótti helsjúkan föður sinn á St. Thomas's-sjúkrahúsið í suðurhluta Lundúna.
Þetta var um kvöld og eftir nokkra stund tók Caine lækninn tali og spurði hvort ekki væri hægt að binda endi á þjáningar föður síns.
Læknirinn sagði í fyrstu útilokað að grípa inn í ferlið en sagði svo nokkru síðar við Caine að hann skyldi koma aftur um miðnætti.
Þear klukkan var fimm mínútur gengin í eitt eftir miðnætti var Micklewhite allur og er Caine sannfærður um að læknirinn hafi orðið við þessari bón sinni.