Óttast aðra eiturleðjuflóðbylgju

Ungverjar keppa nú við tímann og bæta stíflu sem byggð var utan um einskonar lón sem myndaðist eftir að eiturefnaleðja flæddi út úr geymsluþró súrálsverksmiðju á mánudag. Óttast er að önnur flóðbylgja geti farið af stað og það gæti riðið lífi í bæjunum í kring að fullu.

Hundruð sjálfboðaliða vinna hörðum höndum við að aðstoða sérfræðinga að bæta stífluna en sérfræðingar segja að það sé einungis spurning um daga hvenær allt fer af stað á ný.

„Eftir tvo eða þrjá daga fer að rigna og við erum að reyna að hraða hlutum þannig svo hægt verði að ljúka við stífluna áður en það byrjar að rigna," segir Zoltan Illes, yfirmaður umhverfismála á svæðinu.

„Þegar það byrjar að rigna þá fer það sem eftir að leðjunni af stað og stíflan á norðurhliðinni mun gefa eftir og leðjan flæðir af stað á ný," bætti hann við í samtali við AFP fréttastofuna.

Að minnsta kosti sjö létust og um 150 manns þurftu að leita til læknis eftir eiturleðjuflóðið. Í bænum Kolontar, en sá bær fór einna verst út úr flóðinu, þurftu allir íbúarnir að yfirgefa heimili sín og mega ekki snúa heim á meðan enn er hætta fyrir hendi. 

Eiturefnaleðjan flæddi úr geymsluþró súrálsverksmiðju í bænum Ajka á mánudag. Áætlað er að um 700.000 til 1,1 milljón rúmmetrar af rauðri leðju hafi flætt úr þrónni yfir stórt svæði í grenndinni, m.a. tugi bæja og þorpa.

Leðjan myndast þegar súrál er unnið úr báxíti. Málmgrýtið er þá tekið úr jörðinni og hreinsað með vítissóda. Úr því verður til súrál, sem er unnið frekar, og úrgangur, þ.e. óhreinindi í föstu formi, þungmálmar og efni sem notuð eru við vinnsluna, að sögn fréttavefjar BBC.

Um það bil 40-45% úrgangsins eru járnoxíð sem gefur leðjunni rauðan lit. Um 10-15% eru áloxíð, önnur 10-15% kísiloxíð og í leðjunni er minna magn af brenndu kalki, títandíoxíði og natrínoxíði, að sögn fyrirtækisins sem rekur súrálsverksmiðjuna.

Auk þess sem eiturefnin geta valdið brunasárum geta þau skemmt lungun og meltingarfæri ef þau berast inn í líkamann.

Engin súrálsverksmiðja er á Íslandi en um tíma var kannað hvort reisa ætti slíka verksmiðju í nágrenni Húsavíkur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert