Búist er við frekari mótmælum í Frakklandi í dag en margir eru mjög ósáttir við fyrirætlanir stjórnvalda að hækka ellilífeyrisaldurinn. Mótmælendur lokuðu í gær eldsneytisleiðslum til helstu flugvalla Parísarborgar. Talsmaður samgönguráðuneytisins segir að eldsneytið á Charles de Gaulle flugvellinum dugi fram á mánudagskvöld eða jafnvel þriðjudag.
Hann segir að menn séu sannfærðir um að hægt verði að flytja meira eldsneyti til flugvallarins. Hann segir að ekki hafi tekist að loka alfarið fyrir eldsneytisleiðsluna sem liggur yfir til Orly.
Jean-Lous Schilansky, formaður Samtaka franskra olíufyrirtækja, segir að búið sé að loka 10 af 12 olíuhreinsistöðvum í Frakklandi í kjölfar mótmælanna. Mikil spenna sé ríkjandi.
„Eldsneytisleiðslan sem liggur til Orly og Roissy flugvallanna er ennþá virk og við vinnum að því, með ýmsum aðferðum, að setja efni í leiðslurnar, þá einna helst flugvélaeldsneyti,“ segir Schilansky.