Yfirvöld í borginni Guanghzhou í suðurhluta Kína hafa neytt fjölmarga íbúa til að yfirgefa heimili sín fyrir Asíuleikana, sem verða haldnir í borginni í næsta mánuði. Skortur er á landi og eru jarðýtur mættar á svæðið til að ryðja venjulegum heimilium í burtu, en í staðinn eiga að rísa skýjakljúfar.
Þeir sem vilja ekki hlýða fyrirmælum yfirvalda þurfa að mæta afleiðingunum.
Eldri borgari segir í samtali við Reuters að jafnvel þeir sem vilji vernda sínar eigur séu sagðir vera í órétti gagnvart yfirvöldum. Hann bendir á að einn maður hafi verið handtekinn fyrir það eitt að vilja ekki yfirgefa heimili sitt. Hann hafi verið dæmdur í sjö mánaða fangelsi framhaldinu. Nú þegar hann sé laus þá sé búið að eyðileggja þorpið hans.
Mannréttindasamtök óttast að ríkisstjórn landsins sé að beita sömu aðferðum og hún gerði fyrir ólympíuleikana í Peking 2008, þegar stór svæðið voru „hreinsuð“.