Spenna hefur aukist að undanförnu í bænum Silwan sem er skammt frá Jerúsalem vegna aðgerða ísraelsku lögreglunnar gagnvart palestínskum ungmennum sem kasta grjóti í Ísraela. Er ungmennunum hótað að þau verði tekin frá fjölskyldum sínum hætti þau ekki grjótkastinu.
Sífellt algengari sjón í Austur-Jerúsalem - Ungir palestínskir karlmenn og drengir eru fluttir á brott í handjárnum af óeinkennisklæddum lögreglumönnum fyrir að kasta grjóti í Ísraela.
Nú hefur grjótkastið ratað á ísraelska þingið þar sem rætt er um að ef palestínsk börn verða fundin sek um að kasta grjóti þá megi taka þau frá foreldrum sínum.
Þingmaðurinn Danny Dannon segir í samtali við Reuters fréttastofuna að það sé óásættanlegt að börn taki þátt í glæpsamlegu athæfi og að kasta grjóti í saklausa borgara Ísraels.
Ef foreldrar þessara barna geta ekki alið önn fyrir þessum börnum þá verður ríkisstjórnin að grípa inn og fara með börnin frá heimilum sínum.
Er grjótkastið orðið sérstakt vandamál í bænum Silwan en þar ríkir mikil spenna í samskiptum þeirra 60 þúsund Palestínumanna sem þar búa og 500 Ísraela sem hafa sest þar að í landnemabyggðum. Hefur ástandið versnað til muna undanfarnar vikur frá því að ísraelskur öryggisvörður drap palestínskan íbúa bæjarins.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur verið tilkynnt um 450 mál þar sem grjóti var kastað frá því í júlí. Það jafngildir fjórum slíkum kvörtunum á dag.
Mohammed Mansour, þrettán ára piltur, lýsir því fyrir Reuters hvernig hann hafi lent inn í hóp ungra pilta sem köstuðu grjóti að ísraelskum hermönnum. Hann var handtekinn af óeinkennisklæddum lögregluþjónum. Þeir hafi hent honum í jörðina þannig að varir hans skárust. Þá hafi einn þeirra tekið upp vopn og sagt að hann myndi skjóta Mansour ef hann myndi reyna eitthvað.
Síðan hafi hann hjálpað honum á fætur og Mansour hafi reynt að forða sér. Þá hafi annar tekið hann og farið með hann inn í jeppa sem þeir voru á.
Frá því í júlí hefur lögregla handtekið yfir sjötíu manns fyrir grjótkast í bænum. Af þeim voru þrjátíu á aldrinum 12-18 ára.