Fíklum borgað fyrir ófrjósemi

Heróínfíklar í Moskvu. Myndin var tekin í nóvember 2000, en …
Heróínfíklar í Moskvu. Myndin var tekin í nóvember 2000, en fólkið á henni tengist ekki fréttinni að öðru leyti en því að vera heróínfíklar. Reuters

Bandarísk góðgerðarsamtök hafa tekið upp á því að bjóða eiturlyfjafíklum í Bretlandi 200 punda greiðslu gegn því að þeir gangist undir ófrjósemisaðgerð.  Að minnsta kost einn fíkill, frá Leicester, hefur samþykkt að taka þátt og gefur BBC þá skýringu að hann sé ekki hæfur til þess að verða faðir.

Mörg góðgerðarsamtök sem vinna með fíklum hafa gagnrýnt hugmyndafræði bandarísku samtakanna, Project Prevention.Talsmaður þeirra, Barbara Harris, viðurkennir að aðferðirnar geti flokkast sem mútur, en hún segir það vera einu leiðina til að koma í veg fyrir að fíklar eignist börn sem verði fyrir líkamlegum og andlegum skaða á meðgöngunni og fæðist inn í heim fíknarinnar.

Áætlað er að um ein milljón breskra barna búi hjá foreldrum sem misnoti eiturlyf. Fóstur fíkla geta orðið háð fíkniefnum þegar fyrir fæðingu, sem getur valdið heila- og líffæraskaða. Barbara Harris stofnaði Project Prevention í Norður-Karólínu eftir að hún ættleiddi sjálf börn krakkfíkils. Samtökin hafa nú þegar greitt 3.500 bandarískum fíklum fyrir að fara í ófrjósemisaðgerð og ákvað Harris í kjölfarið að snúa sér að Bretlandi. Breskir heilbrigðisstarfsmenn hafa gagnrýnt hana fyrir að hagnýta neyð fólks sem sé að upplifa lágpunkt lífs síns í fíkninni. Aðrir segja að aðferðin sé umhugsunar verð, svo lengi sem ófrjósemisaðgerðin henti einstaklingnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert