Námumenn kvarta undan ágangi fjölmiðla

Námumennirnir óska þess að einkalíf þeirra sé virt.
Námumennirnir óska þess að einkalíf þeirra sé virt. DAVID MERCADO

Tæpur helmingur námumannanna 33 sem bjargað var úr prísund sinni í Chile í síðustu viku sneri aftur að námunni í gær, ásamt vinum og vandamönnum,  til að vera viðstaddir athöfn í tilefni þakkargjörðarhátíðarinnar. Námumennirnir kvarta undan stöðugu áreiti fjölmiðla en við athöfnina voru þeir umkringdir fjölmiðlamönnum.

Tveir prestar, frá kaþólsku og evangelísku kirkjunni, leiddu athöfnina og mætti einnig fjöldi björgunarmanna. Mennirnir voru flestir trúaðir fyrir slysið, en segjast margir vera nánari Guði eftir lífsreynsluna. Athöfnin við námuna var lokuð, en hjörð fjölmiðlamanna beið færis utan við tjaldið þar sem hún fór fram. Einn námumannanna, Juan Illanes, biðlaði til fjölmiðla að virða einkalíf þeira.

„Við komumst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að það væri gott ef þið, fjölmiðlar, í stað þess að meðhöndla þetta eins og eitthvað skemmtiatriði, eins og við höfum séð í sumum fyrirsögnum um Johnny Barrios, sýnið honum tillitssemi og virðið einkalíf okkar."  Johnny Barrios er námumaðurinn sem átti eiginkonu sem komst að því, við frelsun eiginmanns síns, að hann hafði átt hjákonu til 10 ára.

Námumennirnir eru enn allir við góða heilsu, aðeins einn liggur enn á sjúkrahúsi, vegna tannskemmda. Læknar fylgjast þó grannt með þróun mála og segja erfitt að spá fyrir um hvenær áfallastreituröskunin fari að segja til sín. Á laugardaginn byrjuðu mennirnir að taka niður sólgleraugun sem þeir hafa haft á sér síðan þeir komu aftur upp í dagsljósið á miðvikudag eftir 70 daga í myrkri. Þeir hafa gert samkomulag sín á milli um að tjá sig lítið sem ekkert um lífsreynsluna fyrr en samið hefur verið um kvikmyndarétt og bókaútgáfu sögunnar.

Við námuna í gær mótmæltu einnig um 50 starfsmenn hennar, sem ekki festust neðanjarðar, því að þeir hefðu ekki fengið að vinna og ekki fengið greidd laun síðan 5. ágúst þegar náman féll saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert