Prins frá Sádi-Arabíu var í dag dæmdur sekur um að hafa myrt þjón sinn á hótelherbergi í Lundúnum. Refsingin verður kveðinn upp í málinu á morgun.
Saud Abdulaziz bin Nasser al Saud , 34 ára, játaði við réttarhöldin að hafa orðið manninum að bana en neitar því að hafa myrt hann.
Lík Bandar Abdulaziz fannst í svítu sem þeir dvöldu í á fimm stjörnu hóteli í miðborg Lundúna þann 15. febrúar sl. Abdulaziz hafði verið kyrrtur, en mörg sár voru á líkinu sem benda til þess að hann hefði verið barinn hrottalega.
Prinsinn var einnig fundinn sekur um að hafa veitt þjóninum áverka er hann réðst á hann í lyftu nokkru áður. Hafði prinsinn neitað ásökunum þar að lútandi en meðal gagna sem lögð voru fram í réttarsalnum voru upptökur úr öryggismyndavélum lyftunnar sem sýndi svart á hvítu prinsinn ganga í skrokk á þjóni sínum.
Samkvæmt vef BBC var prinsinn undir áhrifum kampavíns og kokteila er hann réðst á þjón sinn, meðal annars með því bíta hann harkalega í hvora kinn. Höfðu þeir verið úti að skemmta sér um kvöldið en þetta var á Valentínusardaginn.
Við réttarhöldin reyndi lögmaður al Saud að leyna gögnum um að prinsinn væri samkynhneigður en hann á yfir höfði sér aftöku í heimalandinu ef hann snýr einhvern tíma þangað á ný. Ekki fyrir að hafa myrt annan mann heldur fyrir að vera samkynhneigður en dauðarefsing er við samkynhneigð í Sádi-Arabíu.
Á vef Sky kemur fram að í fyrstu hafi prinsinn haldið að hann nyti friðhelgi þar sem hann er úr konungsfjölskyldunni í Sádi-Arabíu en það reyndist ekki rétt. Hann sýndi engin viðbrögð þegar dómurinn var lesinn upp í dag.
Var morðið á Abdulaziz lokakaflinn í sambandi sem snérist um vald húsbónda yfir þjóni sínum. Virðist sem prinsinn hafi ráðist aftur og aftur á þjóninn til þess að svala kvalalosta sínum.