Forseti Þýskalands, Christian Wulff, hóf í dag viðræður sínar við leiðtoga Þýskalands, þar sem hann er í opinberri heimsókn vegna vaxandi deilna í heimalandi hans um hvernig múslímskir innflytjendur, sem margir eru tyrkneskir, aðlagast þýsku samfélagi.
Wulff er búinn að hitta kollega sinn Abdullah Gul forseta en mun síðar í dag hitta forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan og æðsta trúarleiðtoga múslíma í landnu, Ali Bardakoglu. Þá mun Wulff ávarpa tyrkneska þingið.
Þetta er í fyrsta skipti í áratug sem forseti Þýskalands heimsækir Tyrkland og varir heimsókn Wulff í fjóra daga. Aðeins eru nokkrir dagar síðan Angela Merkel kanslari sagði að Þýskalandi hefði mistekist að byggja fjölmenningarsamfélag og hvatti innflytjendur til að aðlagast samfélaginu, læra þýsku og tileinka sér þýska siði og gildi.
Haft er eftir Wulff í tyrkneska dagblaðinu Hurriyet í dag að tungumálaörðugleikarnir séu helsta vandamálið í Þýskalandi. „Grunnurinn að lausn svo margra vandamála byggist á því að læra þýsku. Bara það að læra þýsku opnar svo margar dyr inn í menntakerfið svo innflytjendur geti hagnast á tækifærunum sem þar bjóðast," sagði Wulff.
Þýska þjóðin telur 82 milljónir og þar af eru 4 milljónir múslíma. Tyrkir eru stærsti minnihlutahópurinn, 2,5 milljónir. Margir þeirra hafa vissulega aðlagast þýsku samfélagi, en stór hluti þeirra lærir samt aldrei þýsku og einangrar sig í samfélagi innflytjenda. Abdullah Gul forseti Tyrklands hvatti einnig tyrkneska innflytjendur til að tileinka sér þýska tungu. „Þegar maður talar ekki tungumál þess lands sem maður býr í þá hagnast enginn, hvorki viðkomandi manneskja, landið né samfélagið," sagði Gul í blaðaviðtali.