Breytingar kunna að vera í vændum í einu best varðveitta miðaldaþorp í Englandi, Dunster í Somerset héraði, þar sem þúsundir ferðamanna koma á ári hverju. Það sem meðal annars þykir gera Dunster svo sjarmerandi eru gömlu, þröngu göngugöturnar úr tilhöggnum steini. Þessar göngugötur kunna þó að þurfa að víkja, þar sem ferðamenn eiga það til að detta um steinana og slasa sig.
AÐ sögn The Guardian hafa ferðamenn í Dunster sumir endað með brotin bein, gat á höfðinu eða snúinn ökkla eftir rómantískan göngutúr um steinhlöðnu göturnar. Verslunarmenn vilja gjarnan lagfæra steinana framan við verslanir sínar, en óttast að skapa þannig eignarhald á þeim sem geti gert þá ábyrga í lögsóknum ef alvarleg slys verða. Því stefnir í að gömlu, tilhöggnu steinarnir verði látnir víkja fyrir sléttsteyptum gangstéttum.
Nefnd hefur verið sett á fót, sem m.a. er skipuð sveitarstjórnarmönnum og þjóðgarðsvörðum, til að kanna hvaða leiðir sé hægt að fara til að draga úr hættunni án þess þó að Dunster missi sjarmann sem þorpið er frægt fyrir. Formaður nefndarinnar segir helsta vandamálið það að enginn beri ábyrgð á gömlu göngugötunum, þær tilheyri engum. Áður fyrr hafi hver og einn íbúi dyttað að þeim hluta götunnar sem að þeim sneri, en í dag haldi allir að sér höndum af ótta við lögsóknir og á endanum geti það leitt til þess að þorpið verði draugabær.
„Við viljum gjarnan fela göngugöturnar í umsjá vegagerðarinnar, því við þurfum að láta einhvern eiga þær svo að þeim verði haldi við, en vegagerðin vill bara taka við þeim ef við sléttum þær fyrst."