Veronica Lario, eiginkona Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, fer fram á mánaðarlegar greiðslur sem nema 3,5 milljónum evra eftir að skilnaður þeirra gengur í garð. Það jafngildir rúmlega hálfum milljarði íslenskra króna.
Hjónin náðu samkomulagi í maí, þar sem samið var um að Lario fengi 300.000 evrur í grunnframfærslu á mánuð. Auk þess átti Lario að fá leyfi til að nota lúxusvillu Berlusconis í Mílanó að vild.
Berlusconi bauðst auk þessa að láta af hendi rakna 1.8 milljónir evra á mánuði. Það þótti Lario helst til lítið.
Veronica Lario er fyrrum leikkona og hún sótti um skilnað á síðasta ári eftir opinberanir þess efnis að eiginmaðurinn hefði sótt afmælisveislu átján ára fyrirsætu á framabraut sem kallaði hann „pabba.“
Áætlað er að réttarhöld vegna skilnaðarins fari fram í desember.
Berlusconi er einn ríkasti maður Ítalíu, eignir hans eru metnar á um 9 milljónir dollara, samkvæmt Forbes tímaritinu.