Almenningur hvattur til að hengja homma

Úganska dagblaðið Rolling Stone birti nöfn og heimilisföng 100 manna …
Úganska dagblaðið Rolling Stone birti nöfn og heimilisföng 100 manna sem sagðir eru samkynhneigðir og hvatti til ofbeldis gegn þeim. AP

Listi með nöfnum og myndum af 100 samkynhneigðum mönnum í Úganda var birtur á forsíðu úganska dagblaðsins Rolling Stone á þriðjudag með fyrirsögninni „hengjum þá". Heimilisföng mannanna voru birt undir myndunum.

Síðan blaðið var gefið út hafa a.m.k. fjórir menn af listanum orðið fyrir árásum. Margir eru í felum. Hús eins þeirra var grýtt í skjóli nætur. Eitt ár er liðið síðan frumvarp var lagt fyrir þing Úganda  um innleiðingu laga sem hefðu heimilað dauðarefsingu fyrir samkynhneigð. Vegna alþjóðlegs uppnáms í kjölfarið var frumvarpinu stungið undir stól. Samkynhneigðir í Úganda segja hinsvegar að allar götur síðan hafi þeir mátt búa við grófari árásir og áreiti en áður.

Lagafrumvarpið var lagt fram í kjölfar heimsóknar frá bandarískri kirkjudeild, sem boðaði meðferð sem snúa átti samkynhneigðum til gagnkynhneigðar. Hommar í Úganda segja að eftir þetta hafi staðan versnað verulega, því áður hafi fólk ekki verið að velta sér upp úr samkynhneigð en heimsóknin og umræðan um frumvarpið í kjölfarið hafi kynt undir hatrinu.

Julius Kaggwa, talsmaður fyrir réttindum samkynhneigðra í Úganda, hlýtur í dag viðurkenningu frá bandarísku mannréttindasamtökunum Human Rights First fyrir störf sín. Kaggwa segir að þótt dauðadómurinn hafi ekki verið lögleiddur sé samkynhneigð í rauninni samt dauðadómur í Úganda. „Vegna þess að fólk er útskúfað úr öllu félagslífi, því er neitað um heilbrigðisþjónustu og fær ekki að kaupa sér húsnæði," hefur AFP eftir Kaggwa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka