Tvítug háskólamær er orðinn lögreglustjóri í mexíkóska bænum Práxedis Guadalupe Guerrero, sem er skammt frá landamærum Bandaríkjanna. Ungur aldur lögreglustjórans hefur vakið athygli, en svæðið er eitt það hættulegasta í Mexíkó. Stjórnvöld berjast þar við glæpagengi, sem berjast einnig sín á milli.
Marisol Valles, sem stundar háskólanám í glæpafræðum, segist hafa tekið starfið að sér því verkefnið hafi verið áhugavert.
Auk þess að vera háskólanemi og lögreglustjóri þá er hún móðir 13 mánaða gamals drengs. Hún mun stýra 13 lögreglumönnum, en níu þeirra eru konur. Þá hefur lögreglan aðeins yfir einni lögreglubifreið að ráða - þ.e. sem er í lagi, þremur sjálfvirkum rifflum og einni skammbyssu.
Tæplega 30.000 hafa látist í átökum frá því stjórnvöld lýstu yfir stríði gegn glæpagengjunum síðla árs 2006. Gengi berjast um yfirráðarétt yfir flutningsleiðum fyrir fíkniefni til Bandaríkjanna.
Valles á bæði erfitt og hættulegt verkefni fyrir höndum. Margir lögreglumenn og embættismenn eru á meðal þeirra sem hafa fallið í átökum við glæpagengi á svæðinu, sem kallast Juarez Valley.
Það er smátt og smátt að breytast í einskismannsland, því margir íbúar hafa flúið átökin þrátt fyrir veru mexíkóskra hersveita.
Skoðanir íbúa í Práxedis Guadalupe Guerrero eru skiptar um nýja lögreglustjórann.