Skjöl, sem uppljóstrunarvefurinn WikiLeaks birtir á morgun, sýna að 109 þúsund Írakar hafa látið lífið af völdum hernaðaraðgerðanna í Írak á árunum 2003 til 2009. Þar af eru 63% óbreyttir borgarar.
Þetta fullyrðir arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera sem hefur fengið aðgang að hluta skjalanna og rannsakað þau í rúma tvo mánuði. Danska dagblaðið Information segist einnig hafa fengið aðgang að skjölunum, 391.832 talsins. Þá hefur breska blaðið Guardian, bandaríska blaðið New York Times og þýska tímaritið Der Spiegel fengið aðgang að skjölunum líkt og í sumar þegar WikiLeaks birti 77 þúsund leyniskjöl um stríðið í Afganistan.
WikiLeaks hefur boðað til blaðamannafundar í fyrramálið og segir að þá verði gefin meiriháttar yfirlýsing. Al-Jazeera segir, að WikiLeaks muni birta bandarísk leyniskjöl, sem sýni að Bandaríkjaher hafi haldið skrár yfir látna og særða Íraka þótt herinn neiti því opinberlega.
Um miðjan október bárust fréttir af því, að Bandaríkjaher hefði birt tölur um að nærri 77 þúsund Írakar hefðu látið lífið í átökum á tímabilinu frá janúar 2004 til ágúst 2008 en á þessu tímabili var mannfallið mest í Írak.
Upplýsingarnar voru birtar á lítið áberandi stað á vef bandarísku herstjórnarinnar í júlí og bandarískir fjölmiðlar tóku ekki eftir þeim fyrr en nú nýlega.
Samkvæmt þessum tölum létust 63.185 óbreyttir borgarar og 13.754 íraskir félagar í öryggissveitum á þessu tímabili. Þá kom fram að 121.649 óbreyttir borgarar að minnsta kosti særðust. 3592 hermenn vestræna bandalagshersins létu lífið á þessu tímabili og 30.068 særðust.
Mjög mikið ósamræmi er í tölum, sem hafa birst um áætlað mannfall í Írak frá því Bandaríkin og fleiri ríki gerðu innrás í landið í mars 2003. Breska læknablaðið Lancet birti árið 2006 rannsókn þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að nærri 655 Írakar hefðu látið lífið fram að því en þeirri tölu var harðlega mótmælt af ýmsum aðilum.