Fyrrum formaður bandaríska herráðsins segir að aðgangskort sem forseti Bandaríkjanna notar til að skjóta kjarnorkueldflaugum hafi verið týnt í marga mánuði á tímum ríkisstjórnar Bill Clintons.
Hershöfðinginn Hugh Shelton greinir frá þessu í nýrri bók, sem kallast Without Hesitation. Hann segir að þetta hafi gerst í kringum 2000.
Breska útvarpið skýrir frá þessu og segir að náinn aðstoðarmaður forsetans geymi oftast kortið. Shelton segir hins vegar að það hafi týnst, en lykilorðinu hafi síðar verið skipt út. Málið hafi í framhaldinu verið rannsakað.
Skv. starfsreglum er embættismanni gert að fara yfir lykilorðin í hverjum mánuði. Á fjögurra mánaða fresti er lykilorðinu skipt út.
Shelton segir að þegar embættismaður hafi ætlað að sinna sínum skyldum og kanna hvort aðgangskortið væri á sínum stað hafi aðstoðarmaður forsetans sagt að forsetinn væri með það á sér. Forsetinn væri á mikilvægum fundi og það mætti því ekki trufla hann.
Mánuði síðar fór annar embættismaður af stað í sömu erindagjörðum. Hann fékk að heyra svipaða sögu. Þegar það kom svo að því að breyta lykilorðinu viðurkenndi aðstoðarmaður forsetans að kortið væri týnt og ekki sést í marga mánuði.
Shelton segir ljóst að forsetinn hafi ekki verið með kortin og ekki vitað af þessu vandræðamáli.
Hann segir jafnframt að málið hafi minnt á farsa.