Maður án andlits

Dallas C. Wiens.
Dallas C. Wiens.

Bandaríkjamaðurinn Dallas C. Wiens á þá ósk heitasta að geta brosað, fundið lykt af rigningunni og fundið kossa þriggja ára dóttur sinnar. En fyrir tveimur árum lenti hann í rafmagnsslysi sem varð til þess að andlitið brann af honum. 

Þótt læknum hafi tekist að græða húð og vöðva af baki og lærum Wiens á höfuðkúpuna hefur hann engar varir, nef eða augabrúnir og hann er blindur. Hann á þó von á því að verða þriðji Bandaríkjamaðurinn, sem fær grætt á sig andlit. 

„Ég sakna sjónarinnar," segir Wiens, sem er 25 ára. „En ég sakna þó mest tilfinningarinnar í andlitinu og lyktarskynsins."

Wiens man ekkert eftir slysinu, sem varð í nóvember. Hann starfaði þá sem verktaki ásamt bróður sínum og frænda við að mála kirkju. Hann var í vélknúnum vinnupalli en missti stjórn á honum og lenti á háspennulínu.  

Wiens var meðvitundarlaus í þrjá mánuði og næstu sex mánuði gekkst hann undir aðgerðir á sjúkrahúsi í Dallas í Texas. Hann getur talað þrátt fyrir að varirnar og tennurnar vanti. 

„Ég lít á hvern dag sem áskorun og tækifæri til að upplifa von og gleði," segir Wiens við AP fréttastofuna.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert