SÞ efins um kosningarnar í Búrma

Munkar mótmæla í Búrma.
Munkar mótmæla í Búrma. STR

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Búrma lýsir yfir efasemdum sínum með lögmæti kosninganna í landinu, sem haldnar verða í næsta mánuði. Tomas Ojea Quintana frá SÞ segir að skilyrði til að halda raunverulegar kosningar séu takmörkuð og að kosningalög takmarki tjáningar- og fundafrelsi.

Hann kallar eftir því að yfirvöld á Búrma láti lausa yfir 2.000 pólitíska fanga, þar á meðal baráttukonuna Aung San Suu Kyi sem setið hefur í stofufangelsi meira og minna í 20 ár. Herstjórnin sem ríkir í Búrma segir að skýrslan sé byggð á hugarburði og rangfærslum. Kosningar verða haldnar í landinu 7. nóvember. Flokkur Suu Kyi vann sigur í síðustu kosningum, sem haldnar voru árið 1990, en var aldrei leyft að taka við völdum.  

Kosningunum er ætlað, að sögn yfirvalda, að vera liður í því að breyta stjórnarfarinu úr herstjórn í lýðræði, en sendifulltrúi SÞ segir að kosningaferlið sé stórgallað. Allir þeir stjórnmálaflokkar sem ekki njóti stuðnings ríkisstjórnarinnar mæti miklum hindrunum. Herstjórnin í Búrma hafnar skýrslunni.  BBC hefur eftir diplómat að SÞ ætli sér ekki að heimsækja Búrma opinberlega á næstunni, til að forðast að gefa til kynna að SÞ leggi blessun sína yfir kosningarnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert