Assange óttast leyniþjónustur

Bandaríska blaðið New York Times segir, að Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, fari huldu höfði eins og hundeltur maður. Hann krefjist þess að samstarfsmenn sínir noti dulkóðaða farsíma og skipti sjálfur um síma jafn oft og aðrir skipta um skyrtur. Hann dvelji á hótelum undir dulnefni, litar á sér hárið, sefur á beddum og gólfum og notar ekki greiðslukort heldur seðla, sem hann fái oft lánaða hjá vinum sínum.

Blaðamaður New York Times bregður í dag upp svipmynd af Assange en blaðið fékk aðgang að rúmlega 391 þúsund skjölum um hernaðinn í Írak, sem WikiLeaks birti í gærkvöldi.

„Ég er ákveðinn í að halda áfram á þessari braut og gera engar málamiðlanir og er kominn í afar óvenjulega aðstöðu," hefur blaðamaðurinn eftir Assange þegar þeir sátu á eþíópískum veitingastað í Lundúnum. Blaðamaðurinn segir að Assanga hafi hvíslað, af ótta við að vestrænar leyniþjónustur væru að hlera samtalið.

Margt hefur breyst frá árinu 2006 þegar Assange stofnaði WikiLeaks. Assange er 39 ára gamall Ástrali, er sagður með afar háa greindarvísitölu og var tölvuþrjótur í æsku. WikiLeaksvefurinn hefur gert mörgum ríkisstjórnum og fyrirtækjum gramt í geði.  Hann birti m.a. lánabók Kaupþings á síðasta ári og leyniskjöl í bandaríska sendiráðinu í Reykjavík.

New York Times segir að Assange hafi brotið æ fleiri brýr að baki sér og nú sé svo komið, að nokkrir af nánum samstarfsmönnum hans hafi gefist upp á ráðríki hans og einkennilegri hegðan.

Blaðið segir, að nokkrir samstarfsmenn Assange segi, að hann hafi einn tekið þá ákvörðun í sumar að birta leyniskjöl Bandaríkjahers um stríðið í  Afganistan án þess að fjarlægja nöfn óbreyttra Afgana sem veittu Bandaríkjamönnum upplýsingar eða aðstoðuðu þá. 

„Við vorum í mjög, mjög miklu uppnámi vegna þessa og hvernig hann talaði um málið á eftir," hefur New York Times eftir Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Hreyfingarinnar, sem starfað hefur með Assange. „Ef hann gæti einbeitt sér að þeim mikilvægu verkefnum, sem hann sinnir, þá væri allt mun betra." 

Assange sætir einnig rannsókn í Svíþjóð vegna ásakana um að hann hafi nauðgað tveimur sænskum konum. Assange hefur neitað þessum ásökunum og segir að samskipti sín við konurnar hafi verið með vilja beggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert