Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sakar uppljóstrunarvefinn WikiLeaks um að hafa tímasett birtingu nærri 400 þúsund skjöl um hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Írak með það að markmiði að valda sér skaða.
Í skjölunum, sem birt voru í gærkvöldi, er því m.a. lýst að félagar í íröskum öryggissveitum hafi misþyrmt íröskum föngum og að Bandaríkjaher hafi vitað af þessum mannréttindabrotum en ekkert aðhafst.
Í yfirlýsingu frá skrifstofu al-Malikis segir, að menn hljóti að velta því fyrir sér hvort birting skjalanna nú hafi pólitíska merkingu. Al-Maliki, sem er sjíamúslimi, hefur síðustu sjö mánuði reynt að halda í embætti sitt en ekki hefur tekist að mynda nýja stjórn eftir þingkosningar, sem fóru fram í mars.
Í yfirlýsingu forsætisráðherrans segir, að skjölin sem WikiLeaks birti, sanni ekki að föngum hafi verið misþyrmt eftir að al-Maliki tók við embætti forsætisráðherra. Segist forsætisráðherrann hafa tekið harða afstöðu gegn hryðjuverkastarfsemi en útskýrir það ekki nánar.