Mörg þeirra 391.832 leyniskjala, sem vefurinn WikiLeaks birti í gærkvöldi fjalla um fullyrðingar um að íraskar öryggissveitir hafi beitt íraska fanga og aðra hörðu. Önnur skjöl benda til þess, að bandaríska hernámsliðið hafi ekkert reynt að grípa inn í þessi mannréttindabrot Íraka.
WikiLeaks veitti tilteknum fjölmiðlum aðgang að skjölunum fyrir rúmum tveimur mánuðum og í gær fengu blaðamenn að skoða skjölin í lokuðu herbergi í þrjár stundir í Lundúnum.
Í einu skjalinu lýsa bandarískir hermálafulltrúar fangelsi í Bagdad þar sem 95 föngum er haldið í einu fangelsi og látnir sitja með krosslagða fætur og bundið fyrir augun.
Í skýrslunni segir, að margir fanganna séu með sár eftir að hafa verið brenndir með sígarettum, séu marðir eftir barsmíðar og með opin sár. Haft er eftir einum fanganum að 12 fangar hafi látist af völdum sjúkdóma vikurnar á undan.
Í öðrum skýrslum er sagt að Írakar berji fanga og konur hafi verið skotnar til bana við bandarískar varðstöðvar.
Breska blaðið Guardian, sem fékk aðgang að skjölunum fyrirfram, segir þau sýna að bandarísk stjórnvöld hafi ekki rannsakað hundruð skýrslna um misþyrmingar, pyntingar, nauðganir og jafnvel morð, sem íraskir lögreglumenn og hermenn frömdu.
Guardian segir, að talið sé að WikiLeaks hafi fengið þessi skjöl frá sama heimildarmanni, og lét vefnum í té rúmlega 90 þúsund skýrslur um hernað Bandaríkjamanna í Afganistan. WikiLeaks hefur ekki upplýst hver heimildarmaðurinn er.
Skjölin varpa ljósi á þann þátt, sem stjórnvöld í Íran hafa átt í uppreisninni gegn hernámsliðinu í Írak. Fullyrt er að Íranar hafi útvegað uppreisnarmönnum í Írak vopn og þjálfað íraskar dauðasveitir í bardagatækni svo þær gætu ráðist á herflokka bandalagshersins og íraska embættismenn. Að sögn blaðanna Times og Guardian virðist Lýðveldisvörðurinn í Írak hafa leikið aðalhlutverk í þessu.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmdi í gærkvöldi að skjölum væri lekið sem gætu sett bandaríska hermenn og óbreytta borgara í Írak í hættu. Geoff Morrell, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sagði að skjölin væru svipmyndir af atburðum, sumum sorglegum og öðrum hversdagslegum, og segðu ekki alla söguna.