Stukku út af ótta við kölska

Djöfullinn eins og hann birtist í Codex Gigas.
Djöfullinn eins og hann birtist í Codex Gigas.

Ellefu manns slösuðust þegar þau stukku út um glugga í íbúð sinni á annarri hæð í bænum La Verriere í Frakklandi í nótt. Fólkið taldi sig hafa séð sjálfan kölska í íbúðinni. Kölski reyndist þó í raun nakinn sambýlismaður þeirra sem var að svæfa barn sitt um miðja nótt.

„Þrettán manns voru í íbúð á annarri hæð um þrjúleytið í nótt þegar einn íbúa íbúðarinnar heyrði barn sitt gráta,“ segir saksóknari í Versölum, Odile Faivre, í samtali við fréttastofu AFP.

„Maðurinn, sem er afrískur, var nakinn og stóð upp til að gefa barni sínu að borða. Þá hélt sambýlisfólk hans að hann væri djöfullinn,“ segir Faivre.

„Hann var alvarlega særður á hendi en hann var stunginn með hníf áður en honum var kastað út um dyrnar.“

Næst reyndi maðurinn beri að komast aftur inn í íbúðina. „Það var þá sem sambýlisfólk hans reyndi að flýja með því að stökkva út um gluggann, heltekið af ótta við djöfulinn,“ segir Faivre.

Lögreglan hefur nú yfirheyrt hinn meinta djöful, sem er þrítugur, og annann mann sem stökk út um gluggann með tveggja ára dóttur sína í fanginu.

Sjö af þeim ellefu sem stukku út um gluggann voru færð á slysadeild. Faivre segir rannsóknarlögreglumenn nú rannsaka hvort allir hafi stokkið sjálfviljugir eða hvort einhverjir hafi verið neyddir til þess að stökkva.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert