Ellemann-Jensen vill nýja stefnu

Uffe Ellemann-Jensen.
Uffe Ellemann-Jensen. mbl.is/Þorkell

Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur og fyrrum leiðtogi Venstre er ekki sérlega ánægður með þá stefnu, sem eftirmenn hans hafa fylgt í stjórnmálum en Venstre hefur verið í forustu ríkisstjórnar Danmerkur í nærri áratug.

Í nýrri bók segir Ellemann-Jensen, að skortur á umbótum, hræðsla við útlendinga og tortryggni í garð Evrópusambandsins valdi því, að Danmörk sé að missa af lestinni í alþjóðlegri þróun.

„Ég held að það sé tímabært að ég rjúfi þögnina og bendi á, að við neyðumst til að breyta um stefnu á mörgum sviðum ef við ætlum að tryggja framtíð okkar," segir Ellemann-Jensen í viðtali við Berlingske Tidende. 

Hann segir, að þrátt fyrir samdrátt í hagkerfinu á síðustu misserum geri Danir sér ekki grein fyrir ástandinu. Ellemann-Jensen gagnrýnir  Anders Fogh Rasmussen, eftirmann sinn í Venstre og núverandi framkvæmdastjóra NATO, fyrir of mikil ríkisútgjöld og hrósar Lars Løkke Rasmussen, núverandi leiðtoga Venstre og forsætisráðherra, fyrir að grípa þar í taumana. Hins vegar sé ekki nóg að gert og ábyrg ríkisstjórn eigi að boða að ríkið muni hætta að greiða lífeyri.

„Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að við höfum ekki komist út úr kreppunni enn og það tekst okkur ekki fyrr en við höfum gert umfangsmiklar breytingar á velferðarkerfinu," segir Ellemann-Jensen.

Þá segir hann, að umræðan um innflytjendur hafi leitt til þess að Danir hafi fengið það orð á sér að þeim sé illa við útlendinga. „Það gæti reynst okkur dýrt í stöðu þar sem við þurfum á þjálfuðum vinnukrafti að halda."

Berlingske hefur eftir Piu Kjærsgaard, leiðtoga Danska þjóðarflokksins, að hún gefi ekki mikið fyrir yfirlýsingar Ellemanns-Jensens. „Uffe Ellemann-Jensen er herra Sjálfbirginn og herra Ofviti og herra Baksýnisspegill. Ég prísa mig enn sæla yfir, að Uffe Ellemann-Jensen varð ekki forsætisráðherra 1998."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert