Bandarísk samtök þeirra, sem komust lífs af úr helförinni og afkomenda þeirra, fögnuðu í dag útgáfu nýrrar skýrslu opinberrar nefndar, sem komst að þeirri niðurstöðu að þáttur þýska utanríkisráðuneytisins í helför gyðinga á valdatíma nasista hefði verið mun meiri en áður var talið.
Skýrslan, sem gerð var á vegum þýska utanríkisráðuneytisins, verður birt í næstu viku en kaflar úr henni birtust í þýskum blöðum um helgina.
„Þýskaland hefur skoðað fortíð sína með heiðarlegum hætti," segir Elan Steinberg, varaforseti bandarískra samtaka gyðinga. „Nú hefur fyrri tilraunum til að hvítþvo ráðuneytið og starfsmenn þess verið hrundið."
Skýrslan er 880 blaðsíður og nefnist Ráðuneytið og fortíðin. Hana skrifuðu þýsku sagnfræðingarnir Eckart Conze og German Norbert Frei, Bandaríkjamaðurinn Peter Hayes og Ísraelinn Moshe Zimmermann.
Í skjali, sem sagnfræðingarnir birta, réttlætir embættismaðurinn Franz Rademacher, sem sá um „málefni gyðinga" hvers vegna hann þurfi að fara í opinbera heimsókn til Belgrad.
„Útrýming gyðínga í Belgrad og viðræður við ungverska sendimenn í Búdapest," skrifaði Rademacher.
Conze segir, að fyrri fullyrðingar um að þýskir sendimenn á valdatíma nasista hafi lítið tekið þátt í skipulagðri útrýmingu gyðinga séu alrangar. Þvert á móti hafi þýska utanríkisráðuneytið stutt hverjar þær aðgerðir, sem stuðluðu að útrýmingunni.
„Utanríkisráðuneytið var glæpastofnun," sagði Conze við tímaritið Der Spiegel.
Joschka Fischer fól sagnfræðingunum að gera skýrsluna árið 2005 þegar hann var utanríkisráðherra.
„Mér er enn óglatt," sagði Fischer við Der Spiegel eftir að hafa lesið skýrsluna.
Þar kemur m.a. fram. að frá miðjum fjórða áratug síðustu aldar og þar til síðari heimsstyrjöldin braust út 1939 hafi það verið hluti af starfsþjálfun þýskra sendimanna, að eiga fund með Adolf Hitler, þáverandi kanslara, og heimsækja útrýmingarbúðirnar í Dachau.
Þá kemur fram í skýrslunni, að eftir stríðið hafi Konrad Adenauer, kanslari, sem einnig var utanríkisráðherra á árunum 1951 til 1955, haldið mörgum sendimönnum, sem störfuðu meðan á stríðinu stóð, áfram á launaskrá. Þeir voru oft sendir sendir til Arabaríkja eða Suður-Ameríku þar sem litlar líkur voru á að þeir yrðu handteknir fyrir stríðsglæpi.
Árið 1966 lét Willy Brandt, þáverandi utanríkisráðherra og síðar kanslari, Ernst Achenbach starfa áfram sem sendiherra þrátt fyrir aðild hans að helförinni. Sagnfræðingarnir segja, að Achenbach hafi verið háttsettur starfsmaður í þýska sendiráðinu í París og tekið virkan þátt í brottflutningi gyðinga í Frakklandi.
Yfirhylming utanríkisráðuneytisins hélt áfram fram á níunda áratug síðustu aldar þegar ráðuneytið neitaði að afhenda sagnfræðingum tiltekin skjöl frá tímum þriðja ríkisins.
Der Spiegel segir, að þótt Fischer hafi fyrirskipað rannsóknina fyrir fimm árum hafi sagnfræðingarnir fjórir fundið fyrir tregðu í ráðuneytinu, sem hafi ekki verið fúst að greiða götu þeirra.