Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, segir þær staðhæfingar sem fram koma í skjölum sem Wikileaks birti nýlega, um hersveitir sem leiddar voru af Bandaríkjunum í íraksstríðinu, vera „ótrúlega alvarlegar.“
Clegg sagði í samtali við BBC að fólk bíði nú eftir opinberum viðbrögðum við „átakanlegum“ staðhæfingum eftir að Wikileaks birti tæplega 400.000 bandarískar leyniskýrslur um íraksstríðið.
„Við getum harmað hvernig svona upplýsingar leka en að mínu mati er eðli staðhæfinganna ótrúlega alvarlegt. Það kemur manni í uppnám að lesa þessar skýrslur og þær eru mjög alvarlegar,“ segir Clegg.
„Ég geri ráð fyrir því að bandarísk stjórnvöld vilji svara þessu sjálf. Það er ekki okkar að segja þeim hvernig þau fara að því.“
„Allt það sem gefur til kynna að reglur um stríð og átök hafi verið brotnar eða að pyntingum hafi á einhvern hátt verið beitt er mjög alvarlegt og krefst rannsóknar.“
„Fólk mun vilja heyra svör við þessum mjög, mjög alvarlegu staðhæfingum sem eru þess eðlis að ég tel að öllum þyki þær átakanlegar.“
Clegg, sem er formaður frjálslynda flokksins í Bretlandi, hefur áður sagt ákvörðun breskra stjórnvalda, um að taka þátt í íraksstríðinu, stangast á við lög.