Eftirlifendur helfararinnar fagna opinberun skýrslu þýskra stjórnvalda um þátttöku utanríkisráðuneytis Þýskalands í fjöldmorðum seinni heimstyrjaldarinnar. Eckart Conze, einn þeirra fjögurra sagnfræðinga sem fengu það hlutverk að kanna þátt ráðuneytisins í helförinni, hefur víða komið fram í fjölmiðlum um helgina.
Hann telur þátt ráðuneytisins vera mun stærri en áður var talið.
Bandarísk samtök eftirlifenda og niðja þeirra segja skýrsluna varpa ljósi á kafla sem ekki hafi litið dagsins ljós í sex áratugi.
„Þýskaland hefur nú litið í sársaukafullri hreinskilni á fortíð sína,“ segir Elan Steinberg, varaforseti sambandsins, í fréttatilkynningu.
„Tilraunir til að hvítþvo þátt utanríkisráðuneytis Hitlers og starfsfólks þess í glæpum helfararinnar eru nú einskis verðar.“
Conze segir utanríkisráðuneytið hafa stutt með virkum hætti allar aðgerðir, ofsóknir og réttindaskerðingu helfararinnar. „Utanríkisráðuneytið var glæpasamtök,“ segir hann í samtali við blaðið FAS.