Talsmaður David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að misnotkun fanga verði ekki liðin, og að ásakanir um slíkt í gögnum Bandaríkjahers, sem WikiLeaks hefur birt, verði rannsakaðar sérstaklega.
WikiLeaks birtu fyrir helgi 400,000 leynskjöl um stríðsreksturinn í Írak. Í skjölunum er dregin upp dökk mynd af átökunum þar, einkum meðferð Íraskra öryggissveita á óbreyttum borgurum.
„Okkar afstaða er sú að misnotkun er ekki liðin og allar ásakanir verða rannsakaðar,“ sagði talsmaðurinn.
Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra, sagði í gær að ásakanirnar væru „gríðarlega alvarlegar.“
„Allt það sem bendir til þess að grundvallarreglur stríðs og átaka hafi verið brotnar, og að pyntingar hafi verið látnar viðgangast, eru ákaflega alvarlegar og nauðsynlegt að taka til skoðunar,“ sagði Clegg við BBC.
„Fólk mun vilja fá svör við ásökunum sem eru mjög, mjög alvarlegar.“