John Howard, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, vék sér undan skóm sem áhorfandi reyndi að kasta í hann í dag. Atvikið átti sér stað í beinni sjónvarpsútsendingu og þótti minna á það þegar reynt var að kasta skóm í George W. Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna.
Sá sem kastaði skónum hrópaði slagorð sem lýsti andstöðu hans við stríðið í Írak. Hann var handsamaður og fluttur úr sjónvarpssal.
Howard brosti við uppátækinu og virtist ekki hafa verið sleginn út af laginu. Hann mátti sitja undir erfiðum spurningum um stríðið í Írak, en hann studdi innrás Bandaríkjamanna með ráðum og dáð í stjórnartíð sinni.