Lamaður sjúklingur er heilaskaðaður eftir að hjúkrunarfræðingur slökkti á vél sem hjálpaði honum með að anda. Þetta sést í öryggismyndavél sem hafði verið sett upp við rúm hans þar sem hann hafði áhyggjur af gæðum þeirrar þjónustu sem hann nyti á vegum breska heilbrigðiskerfisins.
Maðurinn, sem er 37 ára, lamaðist fyrir neðan háls í bílslysi árið 2002 en var fær um að tala í gegnum tölvu og ferðast um í hjólastól, samkvæmt frétt Telegraph.
Myndavélin var sett upp einungis nokkrum dögum fyrir atvikið en myndir úr henni sýna hjúkrunarfræðinginn fikta í tækinu og skömmu síðar heyrist hátt hljóð sem gefur til kynna að slökkt hafi verið á vélinni.
Á upptökunni sést maðurinn berjast fyrir lífi sínu á meðan hjúkrunarfræðingurinn missir stjórn á sér og virðist ekki hafa hugmynd um hvað hún eigi að gera. Það var ekki fyrr en 21 mínútu síðar sem sjúkraliðar koma á staðinn og kveikja á vélinniá ný. Það var hins vegar það seint að sjúklingurinn varð fyrir heilaskemmdum og er andlegt heilbrigði hans nú á við lítið barn. Ekkert amaði að andlegri heilsu hans áður.