Öldugangur sprengdi bát

Ástralskir ferðamenn undan vesturströnd Indónesíu urðu fyrir því óhappi í gær að báturinn sem þeir voru á splundraðist í öldugangi í kjölfar risajarðskjálfta sem skók svæðið. Skjálftinn mældist 7,7 stig. Enginn ferðamannanna slasaðist alvarlega.

„Við fundum fyrir titringi undir bátnum, og innan nokkurra mínútna heyrðum við gríðarlegar drunur,“ sagði Rick Hallet, Ástrali sem rekur bátaleigu á svæðinu. „Mér datt strax í hug að við kynnum að eiga von á flóðbylgju, horfði út á sjó og sá vegg af hvítfyssandi öldum nálgast okkur.“

„Flóinn sem við vorum á er nokkur hundruð metrar á breidd, og veggurinn náði endanna á milli. Þetta var býsna ógnvekjandi,“ bætti hann við.

Annar bátur var bundinn við akkeri við hlið bátsins sem ferðamennirnir voru á. „Aldan hrifsaði þann bát með sér og keyrði hann inn í þann sem við vorum á. Okkar bátur sprakk, og varð alelda á nokkrum sekúndum.“

Öllum þeim sem voru um borð tókst að synda í land, hvar sumir klifruðu upp í tré á meðan öldugangurinn gekk yfir.

Hinn öflugi jarðskjálfti átti upptök sín á um 20 kílómetra dýpi út af vesturströnd Indónesíu. Í upphafi var óttast að hann kynni að valda flóðbylgju, líkt og þeirri sem lenti á Súmötru árið 2004. Sá skjálfti var þó umtalsvert öflugri, eða 9,3 stig.

Sá ótt reyndist ástæðulaus, og hættuástandi var aflýst seinni partinn í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert