Komið hefur í ljós að býflugur, sem eru með heila á stærð við grasfræ, geta leyst flóknar stærðfræðiþrautir, t.d. fundið alltaf stystu leiðirnar milli gjöfulla blóma sem þær þekkja. Þetta er verkefni sem öflugar tölvur eru nokkra daga að bryðja, segir í Guardian.
Skýrt er frá rannsóknum á flugi býflugnanna í tímaritinu American Naturalist. Býflugurnar nota mikla orku í flugið og því brýnt fyrir þær að velja stystu leið en bent er á að í mannheimum þurfi oft að leysa sams konar verkefni, „Vanda farandsalans“. Ef til vill sé hægt að læra eitthvað af flugunum. Tölvurnar leysa vandann með því að bera saman lengd allra hugsanlegra leiða og velja síðan þær stystu. kjon@mbl.is