Krefjast matvælaaðstoðar

Hátt settir meðlimir í Norður-Kóreska kommúnistaflokknum.
Hátt settir meðlimir í Norður-Kóreska kommúnistaflokknum. KCNA

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa krafist þess að nágrannar þeirra í Suður-Kóreu veiti þeim matvælaaðstoð. Gefið var í skyn að aðstoðin myndi liðka fyrir því að fjölskyldur, sem hafa verið sundraðar í um 60 ár, fái að hittast á ný.

Krafan um 500 þúsund tonn af hrísgrjónum og 300 þúsund tonn af áburði var sett fram þegar fulltrúar beggja ríkja funduðu í borginni Kaesong í Norður-Kóreu.

„Norður-Kóresku fulltrúarnir tengdu saman málefni hinna sundruðu fjölskyldna og matvælaaðstoðarinnar, og gáfu til kynna að þeir væru líklegir til að gefa eftir ef aðstoðin yrði veitt,“ er haft eftir ónafngreindum embættismanni í Suður-Kóreskum fjölmiðlum.

Ætlunin er að 100 manns frá hvoru landi gefist tækifæri til að hitta ættingja sína á laugardaginn, og eyða sex dögum saman. Norður-Kóreumenn hafa haldið því til streitu að aðeins sé um eitt skipti að ræða.

Yfirvöld í Seoul hafa hins vegar farið fram á það að endurfundir sem þessir fari fram einu sinni í mánuði, þar sem margir eldri borgarar láti lífið áður en röðin kemur að þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert