Langreyðurin sem fannst dauð í Vejle-firði í Danmörku nýlega var á bilinu 135-140 ára gömul að sögn vísindamanna við náttúruvísindasafn Danmerkur. Frá þessu er sagt í Berlingske Tidende.
„Um leið og við byrjuðum að skoða augu skepnunnar sáum við að hún væri gömul en engan óraði fyrir að hún væri svona gömul. Hún hefur synt um á meðan Darwin var enn á lífi,“ sagði Abdi Hedayat minjavörður við safnið.
Í fyrstu var talið að dýrið væri um 15 til 20 ára gamalt. Elli er talin vera dánarorsök hvalsins en rannsókn á beinagrind hans leiddi í ljós að hann gæti hafa þjáðst af gigt.