Stjórnvöld í Marokkó hafa látið loka starfsemi arabísku Al-Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar í Rabat og dregið starfsleyfi starfsmanna stöðvarinnar til baka.
Segir í tilkynningu frá samskiptaráðuneyti Marokkó að ástæðan fyrir því að stöðinni var lokað vera þá að hún hafi ítrekað brotið reglur ábyrgar fréttamennsku.
Yfirmaður skrifstofu Al-Jazeera í Rabat, Abdelkader Kharroubi, segir í viðtali við APF fréttastofuna að stöðin hafi alltaf virt reglur ábyrgrar blaðamennsku og hlutleysi, einkum og sér í lagi í Marokkó.
Segir hann að þetta hljóti að vera mistök og það séu mistök sem ekki eigi rót sína að rekja til Al-Jazerra.
Al Jazeera er alþjóðleg fréttastöð en höfuðstöðvar hennar eru í Doha í Katar. Stöðin var stofnuð af fjölskyldu emírsins í Katar en hún hlaut alþjóðlega athygli eftir innrás Bandaríkjamanna inn í Afganistan í kjölfar hryðjverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001, þar sem stöðin var sú eina sem fékk að senda beint út frá Afganistan á þessum tíma.