Hjálparstarfsmenn reyna nú að koma hjálpargögnum til eyjaskeggja á Mentawai-eyjum sem urðu illa úti í flóðbylgju sem þar reið yfir á mánudagskvöld í kjölfar jarðskjálfta. Yfir 400 létust í flóðbylgjunni og er óttast að sú tala eigi eftir að hækka mikið þar sem yfir 100 er enn saknað.
Tæplega 13.000 íbúar á eyjunum hafast við í neyðarskýlum en vitað er að 13 þorp hið minnsta sópuðust á haf út í flóðbylgjunni. Óttast er að þeir, sem enn er saknað, hafi farið sömu leið. Í gær átti enn eftir að ná sambandi við 11 þorp til viðbótar.
Flóðbylgjan kom öllum á óvart og hafa yfirvöld í Indónesíu staðfest að viðvörunarbúnaður, sem var settur upp eftir flóðbylgjuna miklu 2004, hafi ekki virkað á mánudag vegna skemmdarverka en óvíst er hvort hann hefði bjargað íbúunum.
En þetta eru ekki einu náttúruhamfarirnar sem Indónesar glíma við því eldfjallið Merapi á eyjunni Jövu eys nú ösku og hrauni og eru 34 látnir í nágrenni þess.