Þúsundir manns flykkjast nú á fjöldasamkomu í Washington sem spjallþáttastjórnandinn og grínistinn Jon Stewart stendur fyrir sem mótvægi við lævi blandað pólitískt andrúmsloft í aðdraganda kosninganna til fulltrúa- og öldungadeildar sem fara fram á þriðjudag.
Yfirskrift samkomunnar er hvatning til heilbrigðrar skynsemi en stjórnmálabaráttan vestanhafs hefur undanfarið þótt einkennast af upphrópunum og samsæriskenningum.
Samkoman hefst kl. 16 að íslenskum tíma og stendur yfir í þrjá tíma. Á Facebook-síðu útifundarins höfðu um 250.000 manns boðað komu sína frá öllum hornum Bandaríkjanna, Kanada og Mið-Ameríku.
Þó að skipuleggjendur samkomunnar í dag segi að hún sé ópólitísk líta margir svo á að hún sé svar frjálslyndra við hinni öfgahægrisinnuðu Teboðshreyfingu sem hefur látið mikið að sér kveða undanfarið og staðið fyrir fjöldasamkomum.
Í ágúst stóð Glenn Beck, þáttastjórnandi á hinni íhaldssömu sjónvarpsstöð FOX News, fyrir fjöldafundi þar sem talið er að um 80.000 manns hafi mætt til að mótmæla Obama forseta og því sem hann kallaði sósíalískri stefnu forsetans. Sagði Beck samkomuna til þess að endurvekja heiður landsins. Sjálfur hefur Beck líkt Obama forseta við maóista í sjónvarpsþáttum sínum.
Skömmu síðar tilkynnti Stewart og Stephen Colbert, annar þekktur þáttastjórnandi af vinstri vængnum, að þeir myndu standa fyrir útifundi til þess að hvetja til heilbrigðrar skynsemi og var honum augljóslega beint gegn Beck.
Sjálfur hefur Stewart lagt til hugmyndir um kröfuspjöld fyrir þá sem mæta á útifundinn í Washington í dag. „Ég er ósammála þér en ég er nokkuð viss um að þú ert ekki Hitler,“ var ein af tillögum hans í aðdraganda fundarins en Obama hefur ítrekað verið líkt við kommúnista og jafnvel Adolf Hitler af hægriöfgamönnum vegna umbóta hans á heilbrigðistryggingakerfi Bandaríkjamanna. Sagði Sarah Palin m.a. að hann hygðist koma á n.k. „dauðanefndum“ í spítölum landsins.
Þá hafa samsæriskenningar verið uppi um að Obama væri fæddur í Kenía og væri í raun múslimi á laun. Hefur Stewart ásakað FOX News og aðrar íhaldssamar sjónvarpsstöðvar um að halda á lofti hreyfingum sem boði slíkar kenningar.
Kosningarnar fara fram þriðjudaginn 2. nóvember. Kannanir hafa eindregið bent til þess að repúblikanar muni ná meirihluta í fulltrúadeildinni og saxi verulega á meirihluta demókrata í öldungadeildinni.