Lögreglan í Gautaborg í Svíþjóð hefur handtekið hóp manna, sem er grunaður um að hafa ætlað að sprengja sprengjur í miðborginni. Að sögn sænskra fjölmiðla var fólkið handtekið í nótt á nokkrum stöðum í Gautaborg og nágrenni.
Lögreglan fékk í gær upplýsingar um að til stæði að gera sprengjuárás á skotmark í miðborginni í dag. Að sögn vefjarins gt.se verður lögregla með aukinn viðbúnað í borginni í dag vegna þessa.
Lögreglan hefur verið spör á upplýsingar og hvorki viljað segja hve margir hafi verið handteknir eða hvað hafi leitt hana á sporið. Blaðið Expressen segir, að maður hafi látið lögreglu vita af því, að hann hafi heyrt á tal manna sem lögðu á ráðin um að sprengja vörubíl, fullan af sprengiefni, við verslunarmiðstöðina Nordstan í Gautaborg í dag.
Sænska öryggislögreglan Säpo kemur að rannsókn málsins. Hins vegar hefur viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkahættu ekki verið hækkað. Viðbúnaðarstigið var síðast hækkað 1. október og er nú á 3. stigi af fimm.