Lifði á lágmarkslaunum í mánuð

Frá Tallin í Eistlandi
Frá Tallin í Eistlandi Reuters

Eistneskur þingmaður lauk nýlega mánaðarlangri tilraun til að lifa af á lágmarkslaunum í landinu en þau eru rétt um tíu þúsund krónur (64 evrur) á mánuði. Missti hann þrjú kíló þann mánuð sem tilraunin stóð.

Stjórnarandstöðuþingmaðurinn Heimar Lenk úr hinum vinstrisinnaða Miðflokki hóf tilraunina til að vekja athygli á hversu erfitt er að draga fram lífið á lágmarkslaunum í Eistlandi. Lenk er fyrrverandi blaðamaður og hélt hann dagbók á Netinu um þolraunina 

„Ég notaði evrunar 64 aðeins til að kaupa mat en honum er líka ætlað að duga fyrir hlutum eins og sápu og klippingu á hársnyrtistofu. Ég missti næstum því þrjú kíló,“ sagði hann.

Sagðist hann hafa náð að láta sér duga tvær evrur á dag í mat með því að drekka mikið af tei og borða ódýran hafragraut og hvítt brauð.

„Framfærsluviðmiðin sem þingið setur eru alls ekki nógu há til þess að þurfandi fólk njóti lágmarksviðmiða um eðlilegt líf,“ sagði Lenk.

Lágmarksupphæð sem fólk þyrfti fyrir nauðsynjum eins og mat og fötum yrði að vera nær 278 evrum, rúmlega 43 þúsund íslenskum krónum.

Eistland hefur orðið illa úti í efnahagskreppunni sem hefur dunið yfir heiminn og dróst hagkerfi landsins saman um 14% á síðasta ári. Þá rauk atvinnuleysi upp úr 13,4% á síðari helmingi síðasta árs í 18,6% í ár.

Nokkrir ráðherrar í hægrisinnaðri ríkisstjórn landsins, þ.á m. forsætisráðherrann Andrus Ansip, gagnrýndu Lenk og kölluðu hann lýðskrumara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert