Fórnarlömb kynferðisbrotamanna innan kaþólsku kirkjunnar mótmæltu brotunum við Vatikanið í dag. Um 100 manns, fórnarlömb og fjölskyldur þeirra, mættu og kveiktu á kertum við Péturstorgið.
Það voru bandarísku samtökin, Survivor's Voice, sem stóðu fyrir mótmælunum. Talsmenn þeirra sögðu að þeim hefði ekki verið hleypt inn á torgið þar sem Benedikt páfi XVI. messaði. Sumir mótmælendur fóru hins vegar inn á torgið sem einstaklingar og skyldu eftir skilaboð og steina til að minna á málstað sinn.