Greip í sporðinn á hákarli og bjargaði stúlku

Hákarlar á sundi. Mynd úr safni.
Hákarlar á sundi. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar

Björgunarsveitarmenn segja að ung kona sem lenti í kjafti hákarls við vesturströnd Ástralíu eigi ónefndum Ástrala líf sitt að launa. Hann stöðvaði árásina með því að grípa í sporðinn á hákarlinum.

Við það sleppti hákarlinn hinni 19 ára gömlu Elyse Frankcom. Maðurinn sótti stúlkuna og kom henni um borð í bát.

Hún var flutt á sjúkrahús og gekkst undir skurðaðgerð sem stóð yfir í sex klukkustundir. Líðan hennar er sögð vera stöðug, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Atvikið átti sér stað sl. laugardag þegar Frankcom fór fyrir hópi ferðamanna sem voru að synda með höfrungum við eyjuna Garden. Hákarlinn, sem var þriggja metra langur, réðist þá á hana og beit hana í mjöðmina.

Við það greip maðurinn, sem var hluti hópsins, í sporðinn á hákarlinum sem sleppti stúlkunni sem byrjaði að sökkva til botns. Sundkappinn sótti hana og kom henni um borð í bát sem sigldi með ferðamennina, sem voru rúmlega 30 talsins. Þar á meðal nokkur börn.

Bjargvætturinn neitað að tala við fjölmiðla þegar fólkið kom í land. „Hef ekkert að segja. Allt er í góðu. Það eina sem ég vil er að stúlkan sé í lagi,“ sagði hann þegar báturinn sneri aftur til hafnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert