Gríðardýr kosningabarátta vestanhafs

Reuters

Kostnaður við kosningabaráttuna fyrir þingkosningarnar sem fara fram í Bandaríkjunum á morgun er sá hæsti í sögunni samkvæmt sérfræðingum. Ástæðan er m.a. sögð tilkoma Teboðshreyfingarinnar og hversu mjótt sé á mununum í óvenju mörgum fylkjum. Spænska blaðið El País segir frá málinu á vefsíðu sinni í dag.

Talið er að kostnaðurinn nemi um þremur miljörðum dollara, eða 336 milljörðum íslenskra króna. Þetta er niðurstaða nokkurra samtaka sem greina sjónvarpsauglýsingar frambjóðenda. Kostnaðurinn nú er enn hærri en fyrir forsetakosningarnar 2008 þegar hann nam 2,7 miljörðum dollara og fyrir þingkosningarnar 2006 þegar hann var um 1,7 milljarðar.

Þá er reiknað með að heildarkostnaðurinn við auglýsingar í öllum miðlum hlaupi nær 4 milljörðum dollara. Sú upphæð dugar til þess reka borgina Pittsburgh þar sem um 300 þúsund manns búa í tvö ár.

Ástæðurnar fyrir þessum gríðarlega kostnaði nú eru sagðar nokkrar. Tilkoma Teboðshreyfingarinnar hefur aukið hert samkeppnina á milli flokkanna og innan repúblikanaflokksins. Þá er baráttan á milli frambjóðanda repúblikana og demókrata afar tvísýn á óvenju mörgum stöðum fyrir þessar kosningar. Auk þess er dómur hæstaréttar frá því í janúar sem gerði fyrirtækjum og samtökum kleift að leggja nær ótakmarkað fé til kosningabaráttu flokkanna sagður hafa sín áhrif.

Nevada er það fylki þar sem mestu hefur verið eytt í kosningabaráttuna en þar berjast repúblikaninn Sharron Angle og demókratinn Harry Read á banaspjótum um öldungadeildarsæti. Angle er einn mest áberandi fulltrúi Teboðshreyfingarinnar. Samanlagt hafa þau eytt um 30 milljónum dollara í auglýsingar eða um 3,3 milljörðum króna.



Mestu hefur verið eytt í Nevada þar sem demókratinn Harry …
Mestu hefur verið eytt í Nevada þar sem demókratinn Harry Reid glímir við fulltrúa Teboðshreyfingarinnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert