Ræðuritari Kennedys látinn

Ted Sorensen.
Ted Sorensen.

Ted Sorensen, sem var einn helsti ráðgjafi og ræðuritari Johns F. Kennedys, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, lést á sjúkrahúsi í New York í gær, 82 ára að aldri. Sorensen fékk heilablóðfall fyrir 9 árum og aftur fyrir viku og dró það hann til dauða.

Sorensen var lögmaður að mennt en hóf að vinna fyrir Kennedy strax og hann lauk námi. Þegar Kennedy var kjörinn forseti haustið 1960 réði hann Sorensen sem ræðuritara og ráðgjafa og þeir sömdu saman ræðuna, sem Kennedy flutti þegar hann tók við embætti í janúar árið eftir. Sú ræða var stysta innsetningarræða sem þekkt er, tók 14 mínútur í flutningi, en hún þótti marka tímamót í nútíma ræðuritun. Í henni var meðal annars eftirfarandi setning: Spyrjið ekki hvað landið ykkar geti gert fyrir ykkur; spyrjið hvað þið getið gert fyrir land ykkar. 

Sorenson var  einn helsti ráðgjafi Kennedys í Kúbudeilunni árið 1962 þegar heimurinn komst á barm kjarnorkustyrjaldar. Eftir að Kennedy var myrtur haustið 1963 starfaði Sorensen sem alþjóðlegur lögmaður. Hann gekk til liðs við forsetaframboð Bobby Kennedys árið 1968 og bauð sig fram til ríkisþings New York fjórum árum síðar en náði ekki kjöri. 

Jimmy Carter, þáverandi Bandaríkjaforseti, tilnefndi Sorensen árið 1976 í embætti forstjóra leyniþjónustunnar CIA en sú tilnefning fékk ekki samþykki þingsins þar sem mörgum þótti Sorensen of frjálslyndur. 

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, minntist Sorensens í gærkvöldi og sagði hann hafa stuðlað að auknu jafnrétti, réttlæti og öryggi í Bandaríkjunum og heiminum öllum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert