Efnahagsmál eru talin líklega til að vera aðalkosningamálið í kosningum í Bandaríkjunum í dag. Kjósendur eru taldir líklegir til að refsa demókrötum fyrir frammistöðu þeirra í að rétta efnahaginn við. Það verður þó enginn hægðarleikur fyrir repúblikana að komast aftur til valda.
Í fulltrúadeild Bandaríkjaþings eru 435 þingsæti og er kosið um þau öll í dag. Alls eru 100 sæti í öldungadeildinni og er nú kosið um 37 þeirra. Þá er einnig verið velja ríkisstjóra í 37 af 50 ríkjum. Einnig er verið að greiða atkvæði um löggjafarsamkundurnar í 46 af 50 ríkjum.
Skoðanakannanir benda til þess að Demókrataflokkurinn muni missa meirihluta sinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, en halda meirihluta í öldungadeildinni.
Niðurstöður kosninganna gætu haft mikil áhrif á framtíð bandarískra stjórnmála því að í hverju ríki hefur sá flokkur sem ræður löggjafarsamkundu ríkisins og ríkisstjóraembættinu hvernig kjördæmin eru dregin upp fyrir næstu tíu árin.
Þá eru víða greidd atkvæði um tillögur samhliða kosningunum til þingsins. Í Kaliforníu greiða kjósendur t.d. atkvæði um hvort lögleiða eigi notkun maríjúana og í Oklahóma er kosið um hvort banna eigi dómurum að vísa til íslamskra sjaría-laga í úrskurðum sínum. Ef tillagan í Kaliforníu verða samþykkt munu lög ríkisins ganga gegn alríkislögum.
Kjörstaðir opnuðu á austurströnd Bandaríkjanna kl. 6 að staðartíma, eða kl. 10 að íslenskum tíma. Þá opnuðu kjörstaðir í Connecticut, Indiana, Kentucky, Maine, New York, Tennessee, Vermont og Virginíu.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ferðast um landið og hvatt landsmenn til að kjósa Demókrataflokkinn.
Fjórtán klukkustundum síðar mun kosningunum ljúka þegar síðustu kjörstöðunum verður lokað í Alaska á miðnætti að staðartíma, eða kl. fjögur aðfararnótt miðvikudags að íslenskum tíma.