Vísindamenn segja að ný uppgötvun þeirri gæti orðið til þess að hægt verði að þróa lyf gegn sjúkdómum eins og kvefi í framtíðinni. Fréttavefur BBC segir frá þessu í dag.
Hingað til hafa sérfræðingar talið að mótefni gætu aðeins unnið á veirusjúkdómum með því að stöðva eða ráðast gegn veirunni fyrir utan frumur. Nú benda rannsóknir vísindamanna í Cambridge í Bretlandi til þess að mótefni geti smogið inn í frumurnar sjálfar og unnið gegn veirunum innan frá.
Vísindamennirnir segja þó að það gæti tekið mörg ár að vinna að og prófa nýjar meðferðir. Sú leið sem þeir hafi nú fundið muni heldur ekki virka á allar veirur.
„Þessi rannsókn er ekki aðeins stökk fram á við í skilningi okkar á hvernig og hvar mótefni virka heldur einnig í skilningi okkar á ónæmi og sýkingum,“ sagði einn af forsvarsmönnum rannsóknarinnar.
Þegar eru til lyf sem vinna á ákveðnum veirum eins og t.d. HIV. Veirur eru hins vegar enn ein mesta hættan sem steðjar að heilsu mannkynsins. Um tvöfalt fleiri látast úr veirusýkingum á ári hverju en úr krabbameini og eru veirusjúkdómar með þeim erfiðustu við að eiga.