Talsmaður rússneska kaupsýslumannsins Alexandars Lebedevs segir, að hann sé lokaður inn í höfuðstöðvum bankans, sem hann á í Moskvu, og grímuklæddir og vopnaðir lögreglumenn séu að blaða í skjölum bankans.
AP fréttastofan hefur eftir talsmanninum, að um 30 vopnaðir lögreglumenn hafi umkringt bankann í morgun og farið inn í hann. Talsmaðurinn sagðist ekki vita hver ástæðan væri fyrir þessum aðgerðum og talsmaður lögreglunnar neitaði að tjá sig.
Lebedev keypti nýlega breska blaðið Independent og á einnig blaðið London Evening Standard. Hann á hlut í rússneska blaðinu Novaya Gazeta og flugfélaginu Aeroflot.
Algengt er að lögregla geri húsleit í fyrirtækjum í Moskvu og leggi hald á tölvur og skjöl.