Allt bendir til þess að repúblikanar muni vinna sigur í þingkosningunum í Bandaríkjunum í dag, endurheimta meirihluta í fulltrúadeildinni og saxa á meirihluta demókrata í öldungadeildinni.
Demókratar hafa átt undir högg að sækja vegna viðvarandi efnahagskreppu í Bandaríkjunum og vinsældir Baracks Obama forseta hafa hrapað. Hin svokallaða teboðshreyfing hefur hleypt krafti í repúblikana, sem nú segjast ætla að vinda ofan af áætlunum Obamas um að breyta heilbrigðiskerfinu og knýja fram skattalækkanir, sem þeir segja að muni draga úr fjárlagahallanum og hrinda efnahagslífinu af stað.
Kosið er um öll 435 sæti fulltrúadeildarinnar og 37 sæti í öldungadeildinni. Samkvæmt spám gætu repúblikanar bætt við sig allt frá 45 til 70 sætum í fulltrúadeildinni, en þeir þurfa 39 sæti til að ná meirihluta. Repúblikanar þurfa að vinna 10 sæti í öldungadeildinni og er ólíklegt að þeir nái því. Þar á við sú regla að 60 atkvæði þurfi til að stöðva málþóf. Nú eru demókratar með 59 sæti og gætu farið niður í 52 sæti eftir kosningarnar.
Boehner skellir skuldinni af 9,6% atvinnuleysi og stöðnuðu efnahagslífi á Obama.
Obama segir hins vegar að George W. Bush hafi í forsetatíð sinni keyrt efnahagslífið út í skurð og heldur því fram að hann hafi komið í veg fyrir að kreppan mikla skylli á. Hann sagði á fundi í Chicago að það væri stefnu sinni að þakka að bandarískur efnahagur væri nú á batavegi.