Lisa Murkowski tókst það sem flestir töldu vonlaust, að ná kjöri í öldungadeild Bandaríkjaþings án þess að nafn hennar væri á kjörseðlinum. Slíkt hefur ekki gerst í kosningum í Bandaríkjunum í 56 ár.
Murkowski hefur setið á fylkisþinginu í Alaska fyrir hönd Repúblikanaflokksins. Hún sóttist eftir útnefningu flokksins í prófkjöri í sumar, en tapaði naumlega fyrir Joe Miller sem naut stuðnings Teboðshreyfingarinnar og ekki síst frá Söru Palin, fyrrverandi ríkisstjóra í Alaska.
Samkvæmt bandarískum lögum mega kjósendur kjósa í kosningum frambjóðanda þó að nafn hans sé ekki prentað á kjörseðlinum. Þetta gera þeir með því að skrifa nafn hans á kjörseðilinn. Í flestum tilvikum er það mjög fjarlægur möguleiki að ná kjöri með þessum hætti og raunar gerðist það síðast árið 1954 þegar Strom Thurmond var kosinn í öldungadeild með þessum hætti.
Murkowski ákvað fyrir einum og hálfum mánuði að fara í kosningabaráttu á þessum forsendum og hvatti kjósendur til að skrifa Lisa Murkowski á kjörseðilinn. Það gerðu um 40% kjósenda. Miller fékk 34% stuðning og frambjóðandi Demókrataflokksins 24%.
„Þeir sögðu að þetta væri ekki hægt,“ sagði Murkowski sigrihrósandi eftir að úrslitin lágu fyrir. Stuðningsmenn hennar notuðu þá aðferð að dreifa armböndum til kjósenda með nafni hennar til að minna kjósendur á hvern þeir ættu að kjósa.
Þess ber að geta að kjörstjórn í Alaska er ekki búin að birta endanleg úrslit. Kosningastjóri Millers gat ekki leynt vonbrigðum sínum og sagði í viðtali að hann gerði ráð fyrir að Murkowski hefði fengið eitthvað af atkvæðum en kóngulóarmaðurinn hefði líka örugglega fengið atkvæði í kosningunum.